Bragðmikil og seðjandi sætkartöflusúpa

Sætkartöflusúpa.

Þessi súpa er alveg æðislega bragðgóð. Hún er þykk, matarmikil og seðjandi, alveg eins og mér finnst súpur bestar. Þykktin kemur frá grænmetinu í henni sem er maukað, engin smjörbolla á ferð hér.

Súpan er krydduð með örlitlu chillí og cayenne pipar sem gerir hana smá spicy án þess að gera hana of sterka þar sem hún inniheldur einnig rjóma til að vega upp á móti því sterka. Krakkarnir mínir sem eru 2 og 8 ára borðuðu hana með bestu lyst, en ef þú hræðist sterku kryddin þá er um að gera að minnka magnið af þeim.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

1 rauðlaukur

ólífu olía

1 meðalstór sæt kartafla

1 rauð paprika

2-3 hvítlauksgeirar

1 dós niðursoðnir tómatar

1 tsk cumin krydd

1 tsk papriku krydd

¼ tsk chilli krydd

¼ tsk cayenne pipar krydd

2 stk kjúklingakraftar

1 líter vatn

250 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum

Salt og pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Byrjið á því að skera rauðlaukinn smátt niður og steikja í potti upp úr ólífu olíu.
  2. Flysjið sætu kartöfluna og skerið í bita, bætið út í pottinn. Skerið einnig paprikuna niður og bætið úr í pottinn.
  3. Rífið hvítlauksgeirana niður og bætið út í, hellið svo niðursoðnu tómötunum út í og kryddið með kryddunum.
  4. Bætið svo vatninu og kjúklingakraftinum út í, náið upp suðunni.
  5. Maukið súpuna með töfrasprota og sjóðið í u.þ.b. 5-10 mín.
  6. Bætið rjómanum út í og náið upp suðunni. Smakkið til með salt og pipar.
  7. Fallegt að setja örlítinn rjóma og ólífu olíu í skálina þegar súpan er borin fram, jafnvel 1-2 stilkar af ferskri kryddjurt t.d. dill.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook