Einföld jarðarberja grísk jógúrtkaka

Þessi gríska jógúrt kaka er silki mjúk og létt eins og ský. Það merkilega er hins vegar að hún er algjörlega með þeim hollari.

Ég sleppti því algjörlega að bæta við auka sykri í hana og því er þetta nokkur veginn það sama og að fá sér gríska jógúrt með rjóma, jarðaberjum og svolítið af oreo.

Þess vegna hentar þessi kaka mjög vel þegar eftirrétturinn á ekki að vera of sætur eins og til dæmis í barna afmælum, sem léttur eftirréttur og til að auka fjölbreytileikann í veislum.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

20 stk Oreo kexkökur (taka kremið af)

70 g smjör

1/3 dl mjólk

250 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum

200 g grískt jógúrt með jarðaberja og vanillu bragði frá Örnu Mjólkurvörum

200 g grískt jógúrt með vanillu og kókos bragði frá Örnu Mjólkurvörum

2 gelatín blöð

200 g íslensk jarðaber

Aðferð

  1. Takið kremið af oreo kexkökunum og myljið.
  2. Bræðið smjörið og blandið saman við kexið. Setjið hringinn af 22 cm smelluformi á kökudisk sem kakan á að vera á. Smyrjið smelluformið með smjöri og klæðið það svo með smjörpappír. Þrýstið kexblöndunni ofan í formið á diskinum þannig það verður alveg þétt, smellið þessu öllu svo inn í frystinn.
  3. Setjið gelatín blöðin í skál með köldu vatni, látið standa í 10-15 mín eða þar til þau eru orðin mjúk.
  4. Setjið mjólk í pott og hitið að suðu (ekki sjóða samt), kreistið vatnið af gelatín blöðunum og setjið út í mjólkina, hrærið í þar til gelatínið hefur bráðnað.
  5. Þeytið rjómann, blandið gríska jógúrtinu saman við varlega með sleikju, blandið svo gelatín mjólkinni saman við varlega sleikju.
  6. Skerið jarðaberin niður og blandið þeim varlega saman við með sleikju, takið formið út úr frystinum og setjið deigið í formið, sléttið vel úr og geymið inn í ísskáp þar til kakan hefur stirðnað upp (4-5 tíma).

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook