Skinkusnúðar með djúsí ostafyllingu

Skinku snúðar með djúsí ostafyllingu sameinar allt það besta úr skinkuhornum og pizzasnúðum.

Deigið í snúðunum er mjúkt en ekki of þykkt svo fyllingin er í aðalhlutverki. Fyllingin saman stendur af fullt af rifnum osti, rjómaosti og skinku sem gerir snúðana alveg ferlega djúsí og góða!

Það er afskaplega einfalt að útbúa þessa snúða, deigið er fljótlegt en það er í góðu lagi að smella öllu í einu ofan í skálina og hræra saman. Svo er bara að fletja út og smella fyllingunni á, rúlla upp, skera og baka.

Athugið: Hægt er að baka snúðana á smjörpappír með góðu millibili á milli og gera þannig einstaka snúða, ekki snúðaköku.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

2 ½ dl volg mjólk 

12 g þurrger 

2 egg 

1 msk hunang 

2 msk brætt smjör 

7-8 dl hveiti 

½ tsk salt 

300 g rjómaostur 

400 g rifinn mozzarella frá Örnu 

200 g skinka 

Oreganó 

Aðferð

  1. Hitið mjólkina svo hún sé um það bil 37°C. Bætið þurrgerinu út í og blandið saman. Hellið því svo yfir í hrærivélaskál.
  2. Hrærið eggin saman í skál og hellið þeim út í hrærivélaskálina ásamt, hunangi, bræddu smjöri, blandið stuttlega saman.
  3. Setjið 7 dl af hveiti í skál ásamt salti, bætið um það bil helminginn af hveitinu út í gerblönduna, blandið saman, setjið svo restina af hveitinu út í og hnoðið. Ef deigið er ennþá mjög klístrað bætið þá við u.þ.b. einum dl í viðbót af hveiti. Hnoðið í um það bil 4 mín eða þar til þétt kúla hefur myndast.
  4. Leggið hreint viskustykki yfir skálina og látið hefast í um það bil klukkutíma eða þar til deigið hefur tvöfaldast í stærð.
  5. Stráið örlitlu hveiti á borð og fletjið deigið út þannig það sé um það bil 40-50 cm á lengdina og 20 cm á breiddina.
  6. Smyrjið deigið með rjómaostinum og dreifið rifna ostinum yfir. Skerið skinkuna í mjög litla bita og dreifið yfir.
  7. Rúllið deiginu upp á langveginn, svo löng rúlla myndist. Smyrjið stórt eldfast mót með smjöri. Skerið rúlluna í um það bil 2 cm sneiðar og setjið ofan í eldfasta mótið, kryddið með örlitlu oreganó. Leggið viskustykkið yfir aftur og látið hefast í 20 mín.
  8. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, bakið í um það bil 35 mín eða þar til snúðarnir eru orðnir gullin brúnir.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook