Bláberja og banana muffins

Bláberja og banana muffins sem þú átt eftir að elska! Muffinskökurnar eru dúna mjúkar, deigið svolítið klístrað og afskaplega ljúffengt.

Þær eru ekki of sætar og bláberin gera kökurnar ómótstæðilegar. Þar sem enginn sykur er í deiginu má segja að þessar séu örlítið hollari en aðrar bláberja muffins kökur. Þær eru því fullkomnar fyrir krakkana að njóta. Þar sem það er mjög einfalt að smella í þessar kökur, er það upplagt að leyfa krökkunum að hjálpa til við baksturinn líka.

Það er um að gera að njóta þessara bláberja og banana muffins í morgunmat eða sem millimál. Það er líka afar sniðugt að gera tvöfalda uppskrift af þessum og frysta hluta af þeim, taka svo alltaf eina og eina út úr frysti til að njóta.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

3 þroskaðir bananar
1/2 dl hunang
1 egg
1 msk olía
100g grísk jógúrt með vanillu og kókos frá Örnu
4 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
120 g marsípan
150 g bláber

Aðferð

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C og undir+yfir.
  2. Setjið bananana í hrærivélina og hrærið þar til þeir eru orðnir alveg maukaðir (líka hægt að stappa þá með gaffli).
  3. Bætið hunangi, eggi, olíu og grísku jógúrti út í banana stöppuna, hrærið saman.
  4. Bætið hveiti, lyftidufti og salti út í, blandið saman.
  5. Rífið marsípaninn niður, bætið út í og hrærið saman við.
  6. Setjið bláberin út í og hrærið varlega saman við með sleikju.
  7. Setjið pappírs muffinsform í ál muffinsform, fyllið formin upp ¾ og bakið í 20-25 mín.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook