Litlar skyrköku pavlovur

Litlar bláberja skyrköku pavlóvur er skemmtileg blanda af marengsköku og ostaköku.

Ég blandaði saman rjóma og Örnu skyri með bláberja botni ásamt fleira gúmmulaði og setti ofan á litlar pavlovur, útkoman var hreint út sagt æðisleg!

Það er leikur einn að smella í pavlóvur ef notast er við þessa uppskrift. Best þykir mér að láta kökurnar kólna inn í ofninum á meðan ofninn kælir sig niður svo þær springi ekki, en annars eru þær mjög einfaldar.

Ég raða því yfirleitt þannig, þegar ég er að fara baka marengs ásamt fleiri kökum, að marengsinn er það seinasta sem ég baka yfir daginn og svo læt ég hann kólna inn í ofninum yfir nótt.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

6 eggjahvítur

3,5 dl sykur

2 tsk kornsterkja

2 tsk vanilludropar

2 tsk hvítt borðedik

50 g Rice Crispies

500 ml rjómi

200 g Örnu skyr með botnfylli af bláberjum

3 msk flórsykur

50 g karamellukurl

U.þ.b. 150 g bláber

Aðferð

  1. Stillið ofninn á 120ºC.
  2. Notið fullkomlega hreina hrærivéla skál, setjið eggjahvíturnar í skálina og notið þeytarann.
    Blandið kornsterkjunni út í sykurinn, hrærið saman.
  3. Þeytið eggjahvíturnar mjög rólega fyrst, setjið 1 tsk af sykri út í eggjahvíturnar í einu á ca ½ mín fresti, aukið hraðann hægt og rólega eftir því sem þið setjið meiri sykur út í (þolinmæðisverk en þó þess virði).
  4. Blandið saman vanilludropum og hvíta borðedikinu, hellið blöndunni út í þegar eggjahvíturnar hafa náð stífum toppum og hrærið saman við í ½ mín lengur.
  5. Bætið Rice Crispies saman við og blandið saman við með sleikju.
  6. Setjið smjörpappír á ofnplötu, setjið 2 msk af marengs, sléttið úr honum og myndið einskonar skál. Gerið skálar úr öllum marengsinum en passið að hafa smá fjarlægð á milli skálanna því marengsinn stækkar örlítið í ofninum.
  7. Bakið í 40-50 mín, slökkvið svo á ofninum en ekki opna ofninn. Látið kökurnar kólna með ofninum. Takið þær út þegar ofninn hefur kólnað fullkomlega.
  8. Þeytið rjómann og bætið flórsykrinum saman við ásamt skyrinu, karamellukurlinu (skiljið eftir til að skreyta kökurnar með) og helmingnum af bláberjunum. Skiptið rjómanum á milli pavlóvanna, setjið örlítið af karamellukurli og bláberjum yfir.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook