Ljúffengir þorskhnakkar á sætkartöflubeði

Ef þú ert að leita þér af einstaklega góðum fiskrétt þá er leitin á enda. Þessi réttur er einfaldur og rosalega bragðgóður, léttur og ljúffengur. Þetta er uppáhalds fiskrétturinn minn þessa stundina. Ég smakkaði svipaðan rétt heima hjá tengdó um daginn og þetta er mín útfærsla af honum.

Þorskhnakkarnir eru hjúpaðir með eggjum og hveiti og steiktir upp úr smjöri. Rjómasósu og osti er svo bætt út á pönnuna og þorkhnakkarnir bakaðir í sósunni inn í ofni. Þeir eru svo bornir fram á sætkartöflumús og toppaðir með fersku klettasalati.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

800 g þorskhnakkar

1 egg

100 g hveiti

Salt og pipar

Tvær meðal stórar sætar kartöflur

100 g smjör + 2 msk í sósuna og 2 msk á pönnuna.

1/2 tsk vaniludropar

1/2 laukur smátt saxaður

2 hvítlauksgeirar

300 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum

1 tsk sætt sinnep

100 g rifinn mozzarella frá Örnu Mjólkurvörur

200 g kirsuberjatómatar

200 g klettasalat

Aðferð

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
  2. Skerið sætukartöflurnar aðeins niður svo þær komist fyrir í potti, hellið vatni yfir og sjóðið þar til mjúkar í gegn.
  3. Á meðan sætu kartöflurnar eru að sjóða, skerið þá laukinn niður og steikið upp úr smjöri, pressið hvítlauksgeirann ofan í pottinn og steikið. Hellið rjómanum í pottinn, kryddið með salti og pipar, sjóðið saman.
  4. Skerið þorskhnakkana niður í u.þ.b. 200 g bita. Setjið eggið í skál og hrærið það saman, setjið hveitið í aðra skál. Veltið hverjum bita fyrst upp úr eggi og svo hveiti þannig að bitarnir hjúpist alveg. Kryddið með salti og pipar. Steikið upp úr smjöri á báðum hliðum, á pönnu sem má fara inn í ofn. Steikið þar til hjúpurinn hefur fengið á sig örlítið brúnan lit.
  5. Hellið rjómanum yfir fiskinn og dreifið kirsuberjatómötum og rifnum osti yfir, bakið inn í ofni í u.þ.b. 15 mín eða þar til osturinn hefur bráðnað.
  6. Á meðan fiskurinn er inn í ofni setjið þá sætu kartöflurnar án hýðisins í skál og hrærið þeim saman. Setjið smjör og vanilludropa út í og hrærið.
  7. Setjið sætkartöflumúsina á disk og svo fiskbita með sósu ofan á, setjið því næst klettasalat yfir og berið fram.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook