Mjúkir kanínu kanilsnúðar með glassúri

Það er svo gaman þegar farið er að styttast í vorið og páskana. Gleður mig alveg óendanlega mikið að sjá páskagreinarnar sem ég keypti um daginn springa út og gera svo páskalegar uppskriftir og deila þeim með ykkur hér.

Þessir kanínu kanilsnúðar eru klassísku mjúku kanilsnúðarnir sem ég held að þið flest öll ættuð að þekkja miðað við vinsældir þeirrar uppskriftar. Ég breytti bara ölítið magninu af hveiti í uppskriftinni svo snúðarnir myndu standa betur einir og sér.

Auðvitað er hægt að skreyta kanínu kanilsnúðana meira, til dæmis er hægt að gera svart glassúr og teikna augu og nebba til að gera kanínuna greinilegri, Það er líka hægt að skreyta þær með litríku kökuskrauti. En ég vildi hafa þær smá rustic og var því ekkert að flækja þetta meir.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

7 g þurrger

120 ml volgt vatn

120 ml volg mjólk frá Örnu Mjólkurvörum

40 g sykur

80 g brætt smjör

1 tsk salt

1 egg

550 g hveiti

1 egg hrært í skál

Fylling:

120 g mjúkt smjör

2 dl sykur

2 msk kanill

Glassúr:

4 msk mjólk frá Örnu Mjólkurvörum

400 g flórsykur

½ tsk vanilludropar

2 msk rjómaostur

2-3 msk heitt vatn

Aðferð

 1. Setjið hveiti, sykur, salt og geri í skál, hrærið saman.
 2. Bætið út í skálina volgu vatni, mjólk, bæræddu smjöri og eggi. Hnoðið deigið saman þangað til allt hefur blandast vel.
 3. Látið deigið hefast í 1 – 1 ½ klst eða þangað til deigið hefur tvöfaldast í stærð.
 4. Þegar deigið hefur hefað sig dreifið þið svolítið af hveiti á borðið, takið deigið úr skálinni og fletjið það út í um það bil 20×40 cm flöt.
 5. Blandið saman mjúku smjöri, sykri og kanil í skál, hrærið þar til blandað saman. Smyrjið fyllingunni yfir allt deigið.
 6. Rúllið svo upp deiginu frá 40 cm endanum í lengju, skiljið u.þ.b. 10 cm af deiginu óupprrúllað. Skerið deigið svo í u.þ.b. 12 – 15 bita.
 7. Raðið snúðunum á smjörpappírsklædda ofnplötu, takið óupprúllaða endann og myndið tvær lykkjur og festið svo endann við rúlluðna með svolítið af hrærðu eggi.
 8. Leggið hreint viskustykki yfir snúðana og látið snúðana hefast í um það bil 30 mín.
 9. Stillið ofninn á 175°C og undir og yfir hita.
 10. Setjið snúðana í ofninn og látið bakast í 35-45 mín (tími fer eftir hversu þykkir snúðarnir eru) eða þangað til þeir eru orðnir fallega gullnir á litinn.
 11. Á meðan snúðarnir eru í ofninum er gott að útbúa glassúrið.
 12. Hrærið saman flórsykri, mjólk, vanilludropum og rjómaosti.
 13. Best er að setja vatnið hægt út í og hræra vel eftir hverja skeið til að sjá áferðina, hún á að vera þykk en samt þannig að það e rhægt að smyrja glassúrnum á snúðana.
 14. Smyrjið svo glassúrinu yfir í því magni sem þið viljið.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook