Aspassúpa

Hér höfum við nýja uppskrift frá Lindu Ben. Dásamlega heimalagaða aspassúpu úr ferskum aspas sem er allt í senn barnvænn, hollur og góður matur. Linda mælir með að bera súpuna fram með góðu brauði og smjöri.

Linda segir súpuna einfalda, en að fyrst byrji maður á að steikja lauk, aspas og hvítlauk. Bætir svo vatni og kjúlingakrafti út á og lætur malla, maukar svo súpuna. Því næst bætir maður rjómanum út á, kryddar til og lætur malla aðeins meira. Að lokum þeytir maður smá rjóma og skreytir súpuna með fersku timjan.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

1 laukur
2-3 msk smjör
2 búnt af ferskum aspas
3-4 hvítlauksgeirar
1 líter vatn
2-3 kjúklingakraftar
500 ml rjómi frá Örnu
Salt og pipar
Sítrónusafi úr 1/2 sítrónu
U.þ.b. 1 dl rifinn parmesan
Ferskt timjan

Aðferð

  1. Skerið laukinn niður og steikið hann upp úr smjöri.
  2. Skerið hörðu endana af aspasnum og hendið í ruslið.
  3. Skerið toppinn af aspasnum og geymið í skál. Skerið restina af aspasnum niður í litla bita og bætið út í pottinn.
  4. Rífið hvítlauksgeirana niður og bætið úr í pottinn og steikið létt. Bætið svo vatninu út í ásamt 2 kjúklingakröftum, smá salti og slatta af pipar. Leyfið suðunni að koma upp og látið malla í u.þ.b. 15 mín. Maukið súpuna með töfrasprota.
  5. Bætið 400 ml af rjómanum út i súpuna ásamt toppunum af aspasstöglunum sem voru skornir af og geymdir áðan. Bætið sítrónusafanum, parmesaninum og öðrum kjúklingakrafti (ef ykkur finnst vanta) út í og leyfið öllu að malla í 10-15 mín.
  6. Þeytið restina af rjómanum til að setja út á súpuna í skálunum, skreytið með fersku timjan, parmesan og svörtum pipar.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook