Tiramisu vatnsdeigsbollur

Hér höfum dásamlega uppskrift af vatnsdeigsbollum með Tiramisu fyllingu frá Lindu Ben. Algjörlega fullkomnar með ljúffengum kaffibolla.

Fyllingin er útbúin að svipaðan hátt og þegar maður gerir ostakökur, þ.e. maður hrærir flórsykur saman við mascapone ostinn sem maður hrærir svo saman við þeyttan rjóma. Þannig engin hrá egg hér. Svo drekkir maður lady finger kexkökunum í kaffi. Maður ræður svo hvort maður sker lady finger kexkökurnar niður og blandar þeim saman við rjómann eða setur þær sér á hverja bollu fyrir sig. Það gæti verið hentugara að setja kaffidrekkt kexið á hverja bollu fyrir sig ef einhverjum langar ekki í bollu með kaffi. Þá setur maður fyllingu í bæði botninn og toppinn á bollunni og kaffikexið á milli, lokar svo bollunni og toppar með bræddu súkkulaði.

Innihaldsefni

Vatnsdeigsbollur, tilbúnar – sjá uppskrift frá Lindu Ben
400 ml rjómi
150 g mascapone ostur
200 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
U.þ.b. 10 stk lady finger kexkökur
1 bolli sterkt kaffi
200 g suðusúkkulaði
100 ml rjómi

Aðferð

  1. Bakið vatnsdeigsbollurnar samkvæmt uppskrift https://lindaben.is/recipes/hinberja-bolludags-bollur-med-vanillukremsrjoma/
  2. Þeytið rjómann.
  3. Blandið saman flórsykri og mascapone osti. Bætið vanilludropunum út í. Blandið þeytta rjómanum saman við ostablönduna.
  4. Setjið lady finger kexkökur á bakka með smá brún. Hellið kaffinu yfir kexkökurnar og leyfið þeim að taka í sig kaffið.
  5. Skerið keckökurnar í minni bita og bætið þeim ofur varlega saman við rjómablönduna, blandið saman mjúklega með sleikju (við viljum fara rosa mjúklega svo við kreystum ekki kaffið í kexinu).
  6. Skerið bollurnar í helminga og fyllið þær með rjómafyllingunni.
  7. Setjið rjóma í pott og hitið hann að suðu.
  8. Brjótið suðusúkkulaðið í skál og hellið rjómanum yfir súkkulaðið, hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðað og samlagast rjómanum.
  9. Setjið súkkulaði ofan á hverja bollu.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook