Djúsí kjúklingaréttur í pestórjómasósu

Hér höfum við einstalega ljúffengan og djúsí kjúklingarétt sem kemur úr smiðju mömmu minnar eins og svo margir aðrir góðir réttir á þessari síðu. Þetta er réttur sem hún smellir í þegar hún vill eitthvað virkilega gott í matinn en það þarf samt að vera einfalt og fljótlegt.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

U.þ.b. 1/2 grasker (butternut squash)

2 msk Ólífu olía

smá salt

600 g úrbeinuð kjúklingalæri

U.þ.b. 1 1/2 – 2 msk kjúklingakryddblanda

6 hvítlauksgeirar

1/2 laukur

400 ml rjómi

150 g Kryddostur með pipar

1 kjúklingakraftur

150 g rautt pestó

1/4 tsk þurrkaðar chillí flögur

1/2 tsk oreganó

Salatblanda

Aðferð

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
  2. Flysjið graskerið og skerið í 1 cm þykkar sneiðar. Setjið í eldfast mót, hellið ólífu olíu yfir og saltið.
  3. Bakið inn í ofni í u.þ.b. 30 mín eða þar til það er orðið mjúkt í gegn.
  4. Kryddið kjúklingalærin og steikið þau á pönnu þar til það er komin fallega gullin húð á þau, setjið í eldfast mót á meðan sósan er útbúin.
  5. Skerið laukinn og steikið á pönnunni sem kjúklingalærin voru steikt á, rífið niður hvítlauksrifin og steikið létt og hellið svo rjóma út á pönnuna.
  6. Bætið pestóinu út á og rífið kryddostinn út í rjómann og bræðið hann.
  7. Bætið kjúklingakrafti, þurrkað chillí og oreganó á pönnuna. Blandið öllu saman.
  8. Hellið sósunni yfir kjúklingalærin og bakið inn í ofni í u.þ.b. 20 mín eða þar til lærin eru bökuð í gegn.
  9. Berið fram með graskerinu og fersku salati.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook