Einföld súkkulaði bananakaka með dásamlegu kremi

Ég nota klassíska bananabrauðs grunninn minn í þessa uppskrift. Það er alveg virkilega ljúffengt og er sérstaklega létt og mjúkt. Þess vegna hefur mér alltaf langað að búa til köku útgáfu af því. Það er ekki mjög sætt og ákvað ég að halda kökunni áfram á þeim nótum.

Þessa köku er algjörlega hægt að bera fram sem hollari útgáfa af hefðbundinni súkkulaðiköku.
Ég nota súkkulaði og kaffi gríska jógúrt frá Örnu í staðin fyrir óbragðbætta jógúrt í þessari köku. Það gefur alveg rosalega gott bragð í kökuna. Ég setti gríska jógúrt einnig í smjörkremið en það kemur alveg stórkostlega vel út! Það er nánast hægt að lýsa því sem súkkulaði útgáfunni af rjómaostakremi, alveg dásamlega gott!

Vegna þess hve kakan er einföld og þægileg að gera, fannst mér eiga vel við hana að smella henni í kassalaga kökuform og halda skreytingunum einföldum líka. Ég notaði litlar hvítar kökuskrauts kúlur og svo ljós fjólubláar og dökk gráar kökuskrauts kúlur.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

Kakan:

4 vel þroskaðir bananar

60 g smörlíki (smjör)

1 egg

2 tsk vanilludropar

100 g sykur

190 g hveiti

1 tsk salt

1 tsk matarsódi

2 msk kakó

200 g grísk jógúrt með kaffi og súkkulaði frá Örnu Mjólkurvörum (heil dós)

 

Krem: 

200 g smjörlíki (smjör)

300 g flórsykur

2 msk kakó

100 g grísk jógúrt kaffi og súkkulaði frá Örnu Mjólkurvörum (hálf dós)

Aðferð

  1. Byrjið á því að bræða smjörlíkið/smjörið og leyfið því að kólna örlítið niður aftur.
  2. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C.
  3. Setjið banana í hrærivélina og hrærið þá vel saman þangað til þeir eru alveg maukaðir.
  4. Bætið út í skálina eggi og vanilludropum, blandið saman.
  5. Bætið út í skálina sykri, hveiti, salti, matarsóda og kakó, blandið varlega saman.
  6. Bætið svo gríska jógúrtinu og smjörlíkinu/smjörinu saman við.
  7. Takið 20×20 cm form (eða álíka) og smyrjið það vel, hellið deiginu í formið og bakið í um það bil 40 mín eða þangað til kakan er bökuð í gegn.
  8. Kælið kökuna og útbúið kremið á meðan.
  9. Hrærið smjörlíkið/smjörið mjög vel þangað til það er orðið létt og loftmikið.
  10. Bætið þá út í flórsykri og kakó, hrærið mjög vel saman þangað til blandan verður létt og loftmikil.
    Bætið þá út í gríska jógúrtinu vel saman við.
    Smyrjið kreminu á kalda kökuna og skreytið eftir smekk.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook