Litríkt taco með djúsí ostahakki

Hér höfum við einstaklega ljúffengt taco sem þú átt örugglega eftir að elska og öll fjölskyldan líka. Hakkið er virkilega djúsí þar sem kryddosturinn er bræddur saman við það, svona eins og í djúsí pappapítunum sem örugglega margir kannast við.

Djúsí ostahakkið er svo toppað með ljúffengu mangó, fersku rauðkáli, granatepli, kóríander og ferskri lime og hvítlaukssósu.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

6 stk vefjur

1 laukur

500 g nautahakk

2 msk taco kryddblanda

150 g kryddostur með hvítlauk

1/4 rauðkálshaus

1 mangó

1/2 granatepli

Kóríander

1 1/2 dl Grískt jógúrt

1 hvítlauksrif

Smá salt

2 lime (1/2 notað í sósuna, rest notuð til að kreista yfir tilbúið tacos)

Aðferð

  1. Skerið laukinn niður og setjið á pönnuna, bætið nautahakkinu og taco kryddinu á pönnuna og steikið þar til eldað í gegn.
  2. Rífið kryddostinn yfir hakkið og blandið saman, steikið þar til osturinn hefur bráðnað saman við hakkið.
  3. Skerið rauðkál í ræmur, mangó í teninga og náið granateplafræjunum út úr granateplinu.
  4. Blandið saman grísku jógúrti, safa úr 1/2 lime, pressuðu hvítlauksrifi og smá salti.
  5. Hitið vefjurnar og setjið fyrst hakkið á þær, því næst rauðkál, mangó, granateplakjarna og svo sósuna. Setjið svo kóríander yfir.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook